Rithöfundahópurinn Kápurnar býður til höfundakvölds fimmtudaginn 27. nóvember kl. 19.30 þar sem skáldkonurnar Brynhildur Auðbjargardóttir, Hrefna Róbertsdóttir, Hrund Apríl Guðmundsdóttir, Steinunn Þorsteinsdóttir og Sveinbjörg Sveinsdóttir lesa upp úr nýrri bók sinni Orðabönd. Ritstjóri bókarinnar er Guðrún Steinþórsdóttir.
Við bjóðum öll velkomin á viðburðinn í Gunnarshúsi þar sem boðið verður upp á sögur, jólastemningu, kaffi og kruðerí.
Í bókinni eru dregnar upp margræðar myndir úr lífi og hugarheimi, þar sem orð mynda brú á milli minninga, drauma og veruleika. Þar fléttast saman smásögur, örsögur og ljóð í sex bálka: Afturblik, Himnaró, Svifbrot, Hugarstillu, Sálarsáldur og Ljósför.
Vigdís Grímsdóttir ritar eftirmála bókarinnar og segir svo frá:
„Bókin skannar litróf lífsins; fegurðina, ljótleikann, gleðina, sorgina, allt þetta og miklu meira í dásamlegri fléttu alvarleika og húmors. Eftir lesturinn gengur maður niður í fjöru, hugleiðir óvænt formið og spennuna í tungumálinu, sér þá skyndilega glitta í eitthvað milli steina og kemur auga á perlu í opinni skel - og alveg eins og í ævintýri – starir maður í perluna og sér að inni í henni, með örfínu letri, stendur Orðabönd. Ótrúlegt en alveg dagsatt. Bókin er gjöf til allra sem njóta þess að lesa.“