Kæru vinir á Eyrarbakka og í nágrenni,
Þann 6. desember, klukkan 17:00, breytist Hallskot í lifandi jólaævintýraheim þar sem börn og fjölskyldur fá að upplifa töfrandi ferðalag í gegnum upplýstan skóg🎄
Börnin leggja af stað með sögumanni sem leiðir þau um króka og kima skógarins í leit að jólasveini sem hefur… já, týnst sporlaust!🎅 Á leiðinni mæta þau alls konar ævintýrapersónum sem birtast í skóginum, sumir vingjarnlegir, aðrir leyndardómsfullir og hver og einn með sitt hlutverk í leitinni.
Leiðin sjálf verður skreytt með fallegum jólaljósum sem skapa töfrandi stemmingu í vetrarmyrkrinu🎄Að lokum syngja börnin með jólasveininum með undirleik og ef vel liggur á gestum verður frábært tækifæri til þess að gæða sér á nesti og kakó eftir viðburðinn. Takið endilega með ykkur kakó á brúsa ef stemning er fyrir því.
Við hvetjum bæði börn og fullorðna til að koma með vasaljós eða ennisljós, ekki síma, því við viljum að ferðalagið sé skjálaust og lifandi❤️
Barnakór BES mun koma fram og fylla skóginn ljúfum jólatónum sem gefa ferðalaginu enn meiri sjarma.
Við sem stöndum að viðburðinum, Leikfélag Eyrarbakka, Ungmennafélag Eyrarbakka og Skógræktarfélag Eyrarbakka í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg, viljum að sem flest börn geti notið ævintýrsins og því verður frítt inn fyrir alla🌟
✨ Komið með fjölskylduna, kertaglampa í augunum og hlýjan hug og leyfið jólaandanum að leiða ykkur í gegnum ævintýrið!