Guðný Alma og Pétur Nói flytja sígildar íslenskar söngperlur í heimabæjum sínum. Flutt verða sönglög m.a. eftir Inga T. Lárusson, Pál Ísólfsson og Jórunni Viðar.
Fyrri tónleikarnir verða 14. ágúst í félagsheimilinu Miklagarði á Vopnafirði kl. 20.
Seinni tónleikarnir verða 17. ágúst í Hveragerðiskirkju kl. 14 og verða þeir tónleikar hluti af dagskrá Blómstrandi daga 2025.
Aðgangur ókeypis og við hlökkum til að sjá ykkur sem flest!
— — —
Guðný Alma er uppalin á Vopnafirði og hóf sitt tónlistarnám þar bæði píanó og söng. Hún hóf orgelnám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar haustið 2022 meðfram söng- og píanónámi við Tónlistarskólann á Akureyri og lauk kirkjuorganistaprófi vorið 2025.
Guðný Alma starfaði sem aðstoðarkórstjóri Barna- og unglingakórs Glerárkirkju sem og Eldri og yngri barnakóra Akureyrarkirkju. Vorið 2024 lauk hún framhaldsprófi í söng frá Tónlistarskólanum á Akureyri og stundar nú söngnám við Listaháskóla Íslands.
Pétur Nói hóf píanónám 6 ára gamall við Tónlistarskóla Árnesinga hjá Ester Ólafsdóttur. Hann lauk framhaldsprófi í orgelleik undir handleiðslu Kára Þormar vorið 2022. Árið 2023 lauk Pétur Nói kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og lauk kantorsprófi vorið 2025. Hann lærir nú hjá Birni Steinari Sólbergssyni á orgel við Listaháskóla Íslands. Hann hefur haldið orgeltónleika í Selfosskirkju og Hóladómkirkju, leikið með Söngsveitinni Fílharmóníu og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Undanfarin sumur starfaði hann sem bæjarlistamaður og hélt reglulega hádegistónleika í Hveragerðiskirkju.
Pétur Nói var ráðinn organisti við Eyrarbakkakirkju haustið 2023 en í haust tekur hann við Stokkseyrar-, Gaulverjabæjar-, Villingaholts- og Hraungerðiskirkjum.