Íslandsmeistaramót í HRÚTADÓMUM 2025, opnun sýningar, kjötsúpa og kaffihlaðborð á Sauðfjársetri á Ströndum sunnudaginn 24. Ágúst.
___________________________________________________________________
Dagskráin hefst klukkan 12:00 þar sem opnuð verður ný sögusýning í Kaffi Kind. Á henni er fjallað um fjárréttir fyrr og nú, bæði mannvirkið sjálft og einnig um menningarviðburðinn og mannamótið réttir.
Sýningin er hluti af rannsóknarverkefni sem snýst um kortlagningu fjárrétta fyrr og nú um land allt og söfnun á sögum úr réttunum sem Sauðfjársetrið stendur fyrir í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. Síðar í haust verður einnig haldið málþing um fjárréttir og opnaður vefur með hluta af fróðleiknum sem safnað hefur verið.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Safnasjóði, Byggðaþróunarverkefninu Sterkar Strandir og Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Ilmandi kjötsúpa verður á boðstólnum, kr 2.900 fyrir 13 ára og eldri, 1.800 fyrir 6-12 ára og frítt fyrir yngri.
___________________________________________________________________
Íslandsmót í Hrútadómum hefst klukkan 14:00 og er aðgangur að hátíðinni og sýningum Sauðfjársetursins ókeypis í tilefni dagsins.
Boðið verður upp á kaffihlaðborð, kr 3.200 fyrir 13 ára og eldri, 1.800 fyrir 6-12 ára og frítt fyrir yngri.
Árlegt líflambahappadrætti verður á sínum stað og kostar miðinn kr 800. Miðar verða seldir á staðnum en fyrir þá sem ekki komast á staðinn eða vilja kaupa miða í forsölu þá verða miðar seldir frá 15. Ágúst. Miða verður hægt að kaupa í Sauðfjársetrinu, í gegnum einkaskilaboð á facebook eða tölvupóst
c2F1ZGZqYXJzZXR1ciB8IHNhdWRmamFyc2V0dXIgISBpcw== . Einnig má hringja í Siggu safnstjóra í síma 899 3813. Listi yfir þau lömb sem eru í vinning verður birtur fyrir 15. ágúst.
Sjáumst í Sævangi!