Í Skálholti verður boðið upp á menningarveislu alla laugardaga í maí kl 15:00 með fjölbreyttri fræðslu og göngum þar sem náttúra, saga og menningararfur svæðisins fá að njóta sín.
Laugardaginn 17. maí kl 15:00 kemur Halldóra Kristinsdóttir sérfræðingur á Landsbókasafni og fræðir okkur um Skörunginn í Skálholti, Valgerði Jónsdóttur biskupsfrú.
Erindið er haldið í Skálholtsskóla, í fyrirlestrarsal inn af veitingastaðnum Hvönn.
Óhætt er að fullyrða að Valgerður Jónsdóttir hafi verið ein af merkustu konum í íslenskri sögu – skörungur í Skálholti sem fór ótroðnar slóðir á tímum þegar konur höfðu fá völd og takmarkaða möguleika. Þegar hún var aðeins 18 ára gömul giftist hún Hannesi Finnssyni biskupi í Skálholti, fimmtugum manni sem gegndi þá einni æðstu stöðu í kirkjulegu og menningarlegu lífi þjóðarinnar. Eftir sjö ára hjónaband varð hún ekkja aðeins 25 ára gömul og stóð ein fyrir búi í Skálholti í heila áratug – eitthvað sem var afar óvenjulegt á þeim tíma.
Síðar giftist hún Steingrími Jónssyni, sem síðar varð biskup yfir Íslandi. Valgerður var afburðakona á marga vegu – vel menntuð, af ríkum ættum, ötul og hugrökk. Hún safnaði miklum auði, stundaði viðskipti og þótti með gáfaðri konum síns tíma. Hún var ekki aðeins eiginkona tveggja biskupa, heldur einnig móðir, amma og áhrifakona í samfélaginu – og líklega sú ríkasta á Íslandi á sínum tíma.
Í þessu fræðsluerindi segir Halldóra Kristinsdóttir frá lífi og störfum Valgerðar, persónulegum og félagslegum áskorunum hennar, og þeim fjölbreyttu hlutverkum sem hún gegndi í gegnum ævina. Að fyrirlestri loknum verður stutt leiðsögn frá kirkjunni niður á safn og fornleifasvæði, þar sem meðal annars má sjá legstein sem Valgerður lét gera fyrir Hannes Finnsson og fyrri eiginkonu hans. Gengið verður út undirgöngin og út á svæðið þar sem húsaskipan frá 17. og 18. öld var á tímum Valgerðar í Skálholti.
Halldóra Kristinsdóttir starfar sem sérfræðingur á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Árið 2021 tók hún þátt í uppsetningu sýningar sem heiðraði minningu Valgerðar þegar 250 ár voru liðin frá fæðingu hennar.
Allir viðburðir eru ókeypis og opnir öllum. Uppbyggingasjóður Suðurlands styrkir viðburðinn.
Veitingastaðurinn Hvönn verður opinn og býður m.a. upp á súpu dagsins og brauð á tilboði.
You may also like the following events from Skálholt:
- This Saturday, 10th May, 03:00 pm, Að bjarga bók - Old Icelandic books in Selfoss
- This month, 24th May, 03:00 pm, Under the Surface of Skálholt with Gavin Lucas in Selfoss
- This month, 31st May, 03:00 pm, Eggjakökupönnur, saffran og ruslakeppir. Nanna Rögnvaldar skoðar marghliða íslenska matarsögu. in Selfoss