Á þessum fjölskyldutónleikum fá ungir tónleikagestir að kynnast hljóðfærum strengjafjölskyldunnar í gegnum skemmtilegar sögur og tónlist frá ýmsum tímabilum.
Í lok tónleikanna er hægt að skoða hljóðfærin í návígi, spyrja spurninga og prófa að spila!
Hentar börnum á leikskólaaldri og á fyrstu stigum grunnskóla.
Viðburðurinn er hugarsmíð Sigrúnar Harðardóttur fiðluleikara Caudu Collective, sem hefur undanfarin ár búið til vandað og frumlegt barnamenningarefni, t.d. með leikhúshópnum Miðnætti sem stendur að baki verkefna eins og Þorri og Þura og Tjaldið í Borgarleikhúsinu. Þá hefur Sigrún um árabil staðið að tónlistartímunum Bambaló sem eru tónlistarsmiðjur sérhannaðar fyrir börn á aldrinum 0-5 ára og foreldra þeirra.
Í Hannesarholti er hlýleg og notaleg stofustemming með mikilli nálægð, sem gerir þessa tónleika alveg einstaka fyrir yngstu tónleikagestina.
Flytjendur:
Sigrún Harðardóttir fiðla, Björk Níelsdóttir söngur og sögumaður, Þóra Margrét Sveinsdóttir víóla, Þórdís Gerður Jónsdóttir selló, Gunnlaugur Torfi Stefánsson kontrabassi.
Um Eldblik - tónleikaröð Caudu Collective í Hannesarholti:
Eldblik er tónleikaröð Caudu Collective í Hannesarholti. Á henni er lögð áhersla á að flytja fjölbreytta kammertónlist frá öllum tímabilum Vestrænnar tónlistarsögu auk þess sem eldri verkum er teflt saman við nýja íslenska tónlist. Tónleikarnir fara fram í Hljóðbergi, tónleikasal Hannesarholts, þar sem smæð salarins og nánd áheyrenda við flytjendur mætast í hlýrri hljóðvist rýmisins. Þannig er löðuð fram einstök stofutónleikastemning.
You may also like the following events from Hannesarholt: