Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, boðar til opins umræðufundar í Norræna húsinu 10. september í tilefni af 80 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna.
Fundurinn er vettvangur fyrir umræðu um fjölþjóðasamstarf, með sérstakri áherslu á Sameinuðu þjóðirnar, og hvernig Ísland getur lagt sitt af mörkum og brugðist við áskorunum framtíðarinnar. Fundurinn sameinar sjónarhorn úr alþjóðastarfi, fræðasamfélagi og borgaralegu samfélagi.
Til að hefja umræðuna munu fjórir sérfræðingar deila hugleiðingum sínum um SÞ útfrá sögulegu samhengi, árangri í starfi, tækifærum á umbreytingatímum og framtíðarsýn. Að erindum loknum mun fundarstjóri beina spurningum til frummælenda áður en opnað verður fyrir spurningar og umræður úr sal.
Frummælendur:
• Guðni Th. Jóhannesson – Prófessor í sagnfræði
• Árni M. Mathiesen – Fyrrverandi ráðherra og sérfræðingur hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO)
• Helen María Ólafsdóttir – Ráðgjafi um öryggis- og þróunarmál
• Þorgerður María Þorbjarnardóttir – Formaður Landverndar
Fundarstjóri: Bogi Ágústsson - Fjölmiðlamaður
Fundurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á alþjóðamálum, stjórnmálum, mannréttindum og framtíðarsýn Íslands á alþjóðavettvangi – hvort sem það eru embættismenn, fræðafólk, nemendur eða almenningur sem fylgist með starfi Sameinuðu þjóðanna.
Húsið opnar klukkan 8:45 með morgunhressingu en fundurinn hefst klukkan 9:15.
Hvetjum gesti til að skrá sig til að áætla kaffiveitingar:
https://forms.office.com/e/e17PVPKr2a