Eva Jörgensen ver doktorsritgerð sína í mannfræði við Háskóla Íslands með titilinn „Fólk vill yfirleitt ekki heyra það sem ég hef að segja”: Samsett etnógrafía um réttindi og reynslu barna á Íslandi og víðar í COVID-19 heimsfaraldrinum. Vörnin fer fram í Þjóðminjasafni Íslands kl. 13:00 og er öllum opin. Andmælendur eru Dr. Kristen E. Cheney, prófessor við International Institute of Social Studies í Haag, og Dr. Anna Sarkadi, prófessor við Uppsala háskóla.
Um ritgerðina:
Í doktorsritgerðinni er fjallað um hvernig réttindi barna birtust í alþjóðlegum rannsóknum og stefnumótun á tímum COVID-19 heimsfaraldursins og hvernig börn á Íslandi tókust á við samfélagsbreytingar í kjölfar sóttvarnaaðgerða. Rannsóknin sameinar sjónarhorn heilsumannfræði og félagslækninga barna til að skilja reynslu barna bæði út frá alþjóðlegum réttindum og sérstökum menningarlegum aðstæðum.
Rannsóknin byggir á samsettri etnógrafískri nálgun með fjölbreyttri gagnaöflun og samanstendur af fjórum tímaritsgreinum: Fyrsta greinin sýnir hvernig raddir barna heyrðust sjaldan í alþjóðlegum rannsóknum í upphafi faraldursins. Önnur greinin kannar viðhorf alþjóðlegra sérfræðinga til þess hvernig tekið var tillit til barnaréttinda í neyðaraðgerðum stjórnvalda. Þriðja greinin greinir fjölbreyttar listrænar tjáningar barna á aldrinum 6-16 ára á Íslandi, þar sem fram kemur hvernig þau sýndu gerendahæfni í gegnum kímni, samfélagsábyrgð og gagnrýna hugsun. Fjórða greinin sýnir síðan hvernig unglingar á aldrinum 12-18 ára nýttu traust og sköpunarkraft til að viðhalda félagslegum tengslum þrátt fyrir samfélagstakmarkanir.
Niðurstöðurnar leiða í ljós að þótt börn hafi oft verið jaðarsett í stefnumótun um lýðheilsumál, sýndu þau fram á mikla gerendahæfni, seiglu og sköpunarkraft. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að viðurkenna börn og unglinga sem virka þátttakendur í ákvarðanatöku, sérstaklega á válegum tímum.
Leiðbeinandi doktorsritgerðarinnar er Jónína Einarsdóttir, prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd sátu einnig Dr. Ria Reis, professor emeritus við Háskólann í Amsterdam, og Dr. Shanti Raman, prófessor við Háskólann í Vestur-Sydney.
Um doktorsefnið:
Eva er fædd 27. janúar 1989 í Reykjavík. Hún lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2013, MSc-prófi í heilsumannfræði frá University College London árið 2015 og MA-gráðu í fornleifafræði frá Háskólanum í Aþenu árið 2019. Eva hefur starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands frá 2020 og við Háskólann í Reykjavík frá 2023 en hefur sinnt frekari vinnu í tengslum við alþjóðlegt rannsóknarsamstarfi ISSOP/INRICH á sviði barnaréttinda. Eva er gift Kimi Tayler og þær búa saman á Stöðvarfirði þar sem þær reka saman fyrirtækið Brauðdaga. Eva mun einnig hefja störf í rannsóknar- og samfélagsteymi Austurbrúar í ágúst.