*Sál og líkami. Sállíkami. Líkamssál*
Laugardaginn 26.apríl klukkan 15:00 endurtökum við *Sómatíska samveru* í sal Lífspekifélagsins í Ingólfsstræti en viðburðurinn s.l vor sló í gegn og var ákaflega vel sóttur.
Laugardaginn 26. apríl munu þær *Lára Martin, Halla Himintungl og Kvika Föld* hug-leiða okkur inn í eigin lækningarmátt og kenna okkur aðferðir til að tengja sálarkerfið betur við eigin líkama og líkamann við sálarkerfið í gegn um dans, öndun og hugleiðslu.
*Dans* 💃
Hreyfing er lækning. *Movement Medicine* er aðferð sem byggir á því að við getum komist í tengingu við líkamann, jörðina; öll frumefnin 5, umhverfið og tilveruna með því að leyfa líkamanum að hreyfa sig við tónlist. Það er andleg lækning í dansi enda er dansinn ein af aðferðunum sem notaðar hafa verið af mannkyninu um aldir alda til að komast í samband við æðri vitundarstig.
*Kvika Föld* fræðir okkur um undirstöðuatriðin í Movement Medicine dansi og leiðir okkur af stað. Kvika Föld er Movement Medicine kennari, dansari og myndlistarkona. Hún er fædd í Transilvaníu og bjó um árabil í Svíþjóð en síðustu rúm tuttugu árin hefur hún búið á Ísland.
*Öndun* 🌬️
Líkaminn geymir allt og alheimurinn býr í andardrættinum. Í hvert sinn sem við drögum inn andann þá drögum við í okkur lífið sjálft. Með því að fylgjast með önduninni í hugleiðslu komumst við nær sjálfinu og innsæinu.
*Lára Martin* kynnir okkur fyrir þeirri tegund af hugleiðslu sem byggir á því að fylgjast með andardrættinum og fókusera einungis á öndun. Hún kennir okkur aðferðina og fer yfir mikilvægi þess að kynnast eigin andardrætti og gera hann að vini sínum.
Lára hefur lagt stund á dulspeki og andlega rækt í áratugi en hún kennir einnig kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.
*Innra bros* ☺️
Hugleiðsluformið *Innra bros* kemur frá Taóisma og kínversku læknisfræðinni og byggir á að tengja öndun við innri líffæri líkamans. Að henni lokinni erum við afslöppuð og endurnærð og svolítið brosandi innra með okkur.
*Halla Himintungl* leiðir okkur í gegn um þessa hugleiðslu en hún hefur stundað heildræna heilun síðan 1996 og hefur unun af því að læra og viða að sér þekkingu um heilun og að rækta hana á uppbyggilegan hátt fyrir hjarta, líkama og sál.
Halla er menntaður hjúkrunarfræðingur, stjörnuspekingur, Reiki Meistari, Dáleiðari, Bowen meðferðaraðili og Chi Nei Tsang kviðnuddari.
---
Stúkan Mörk stendur fyrir samverunni. Boðið verður upp á léttar veitingar í lok dagskrár ☀️☕️ Aðgangur er ókeypis en við þiggjum frjáls framlög. Öll hjartanlega velkomin/n.
You may also like the following events from Lífspekifélagið:
Also check out other
Health & Wellness events in Reykjavík.