Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, verður haldin dagana 28. til 31. ágúst og verður glæsileg að vanda. Hátíðin var haldin í fyrsta skipti árið 2005 og hefur vaxið og dafnað í gegnum árin. Í tilefni af tuttugu ára afmæli hátíðarinnar fær hún nýtt merki. Margar hefðir hafa skapast í kringum hana, svo sem garðtónleikar, götugrill og brekkusöngur í Álafosskvos.
Formleg setning hátíðarinnar fer fram fimmtudaginn 28. ágúst með hátíðardagskrá í Hlégarði. Þar verða veittar umhverfisviðurkenningar og útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar. Á dagskrá hátíðarinnar verða fastir liðir svo sem flugvéla- og fornbílasýningin á Tungubökkum, kjúklingafestival, Pallaball og sundlaugarkvöld í Lágafellslaug. Á laugardagskvöldi safnast íbúar saman í götugrill og skapa þá einstöku stemningu sem hefur einkennt hátíðina frá upphafi.
Stórtónleikar sem alla jafna hafa verið haldnir á Miðbæjartorgi á laugardagskvöldi verða nú á Hlégarðstúni á sunnudegi kl. 17. Þessi breyting er gerð til að gera tónleikana fjölskylduvænni og stuðla að öryggi gesta. Landsþekktar hljómsveitir og heimafólk stíga á svið og ljúka hátíðinni með stæl.
Hátíðin hefur frá upphafi verið hugsuð sem þátttökuhátíð þar sem íbúar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir bæjarins taka höndum saman og móta dagskrána. Í fyrra voru yfir hundrað viðburðir á dagskrá sem dreifðust víða um Mosfellsbæ – frá Tungubakkaflugvelli til Hafravatnsafréttar – og má búast við svipaðri fjölbreytni í ár.
Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttri dagskrá sem kynnt verður þegar nær dregur.
Undirbúningur hátíðarinnar er í fullum gangi og þeir sem luma á hugmyndum eða vilja vera með viðburði eru beðnir um að senda póst á netfangið
aXR1bmludWhlaW1hIHwgbW9zICEgaXM= fyrir 20. ágúst nk.