Í nóvember 2025 verða 180 ár liðin frá því að Árni Thorlacius hóf samfelldar veðurfarsmælingar í Stykkishólmi sem hafa staðið óslitið síðan. Árni fæddist árið 1802 og varð umsvifamikill verslunar- og fræðimaður í Stykkishólmi eftir að hann kom heim úr námi frá Kaupmannahöfn. Þessar mælingar eru taldar meðal elstu samfelldu veðurmælinga í Evrópu og árið 2019 veitti Alþjóðaveðurfræðistofnunin Stykkishólmsbæ viðurkenningu fyrir það afrek. Samfélagslegt mikilvægi þeirra er ekkert minna en hið hnattræna þar sem þær gefa okkur dýrmæta innsýn inn í nær tveggja alda veðurfarsbreytileika í Norður Atlantshafi og hafa þannig lengi gagnast við margskonar innlendar og alþjóðlegar loftslagsrannsóknir.
Í tilefni þessa afmælis verður efnt til málþings sem verður haldið í Vatnasafninu í Stykkishólmi 11. október næstkomandi. Megin þema málþingsins verða veðurmælingar Árna en til stendur að upphefja þennan hluta af sögu Stykkishólms og gera henni skýr skil samfélagslega sem og að setja mælingarnar í hnattrænt samhengi. Þýðing þeirra í alþjóðlegum loftslags rannsóknarverkefnum verður rædd en einnig vægi slíkra mælinga gagnvart yfirstandandi breytingum í veðurfari.
Markmiðið er að brúa bil milli samfélags og vísinda og skapa samtal þar á milli. Við fáum til þess aðstoð frá sjónarhorni listamanna varðandi þátt vísinda og náttúru í þeirra sköpun. Málþinginu líkur með opnun sýningar í Norska húsinu - Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla, með verkum listamanna undir þemanu Vendipunktar/Tipping Points.
Verkefnið er stutt af Safnaráði, Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Sveitarfélaginu Stykkishólmi.
Dagskrá - 11. október kl. 13:00-16:00
13:00: Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Stykkishólms setur þingið með stuttu erindi.
13:05: Á veðramótum: Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur hjá Rannsóknarsetri Háskólans á Ströndum, fer yfir veðurþekkingu þjóðar fyrr á tímum og nú.
13:25: Anna Melsteð, þjóðfræðingur, fjallar um lífið í Norska húsinu á tímum Árna og fjölskyldu.
13:45: Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, fjallar um mikilvægi þessara mælinga í loftslagsrannsóknum og hvernig fortíðin getur nýst okkur til að skilja framtíðina
14:05: Kaffihlé - Kvenfélagið Hringurinn, Stykkishólmi, sér um veitingar
14:35 Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, jarðfræðingur og vísindamaður, fjallar um rannsóknir sínar á ískjörnum Grænlandsjökuls og hvernig þær tengjast mælingum Árna.
14:55: Ole Martin Sandberg nýdoktor og heimspekingur hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, ræðir um óþekktar afleiðingar vegna loftslagsvár hér á Íslandi.
15:15: Þorgerður Ólafsdóttir listakona segir frá verkum sínum sem fjalla um samband mannsins við náttúruna í síbreytilegum heimi, þar sem hugmyndir um tíma, tengsl og skala eru í forgrunni.
15:35: Hera Guðlaugsdóttir frá Veðurstofu Íslands flytur samantekt.
Öll hjartanlega velkomin, aðgangur er ókeypis.
Gott væri að skrá sig á málþingið með því að senda tölvupóst á
aW5mbyB8IG5vcnNrYWh1c2lkICEgaXM= eða
aGVyYWd1ZGxhdWdzIHwgZ21haWwgISBjb20=.