Föstudaginn 1. ágúst opnar Anna Þóra Karlsdóttir sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina NÁND.
Sýningin er opnin daglega frá kl. 14.00 - 17.00 til 13. ágúst.
SSNE og Fjallabyggð styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu.
Anna Þóra Karlsdóttir
NÁND
Kompan – Alþýðuhúsinu Siglufirði
1.-13. ágúst 2025
Nánd er yfirskrift sýningar listakonunnar Önnu Þóru Karlsdóttur sem opnuð verður í Kompunni Alþýðuhúsinu á Siglufirði föstudaginn 1. ágúst kl. 16.
Nánd er okkur mikilvæg og í henni finnum við fyrir stöðu okkar í heiminum og samfélagi alls sem er. Þræðir liggja víða, sýnilegir og ósýnilegir, þeir tengja saman allt sem lifir og hrærist og himin og jörð.
Verk Önnu Þóru taka á sig ýmsar myndir, ullin sem áður veitti hita og skjól lyftist upp í rýminu og efni breytist í anda. Fyrir augum okkar svífa línur, litir og form sem líða um í rýminu og beina sjónum okkar til himins og jarðar. Þó að sum þeirra sýnast við fyrstu sýn vera bundin í formi sínu eru þau, þegar betur er að gáð, án fastra útlína eða ramma. Þau leita út í rýmið og tengjast þannig umhverfi sínu og umheimi á náttúrulegan og eðlilegan hátt.
Þau tengja einnig okkur við heiminn og hvort annað og nándin á milli okkar eykst við upplifun okkar á verkinu.
Þannig verðum við nær hvort öðru og heiminum öllum.
Allt er eitt.
Guðlaugur Valgarðsson, sýningarstjóri
Anna Þóra hefur fengist við myndlist og myndlistarkennslu frá því hún lauk námi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Konstfack í Stokkhólmi. Sýningin „Nánd“ er þrettánda einkasýning hennar. Þá hefur hún tekið þátt í um fimmtíu samsýningum síðan 1975.
Anna Þóra hefur tvisvar fengið starfslaun úr Launasjóði myndlistarmanna. Í fyrra skiptið í sex mánuði, og í seinna skiptið í tvö ár. Hún hefur einnig dvalið á vinnustofum erlendis við listsköpun sína. Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur eiga bæði verk eftir Önnu Þóru.
www.annathora.is www.facebook.com/annathorakarlsdottir