Kvittanagleðin heldur áfram!
Velkomin að kíkja við á gjörning og útgáfu verkanna Gakk eftir Guðrúnu Brjánsdóttur og Tími til neins eftir Elínu Eddu sem haldin verða í Skáldu laugardaginn 18. október milli 13–16.
Ljóðin verða til sölu á metraverðinu 750 krónur.
Boðið verður upp á heitt súkkulaði fyrir þau sem vilja ylja sér innan um bækur og ljóð.
Gjörningurinn var síðast haldinn 19. september í Bókumbók og komust færri að en vildu.
–
Tími til neins. Tími flytur fólk og hluti á staði. Stillir okkur upp við vegg. Stillir og ruglar til skiptis. Umhverfið fylgir tímanum taktfast en sumt færist ekki með. Tíminn er útsettur fyrir ólæknandi fjarlægð. Tíminn er útsettur fyrir ólæknandi nálægð.
Gakk. Gakktu leiðina þangað til þú greinir hana ekki lengur. Þræddu götur, misilla upplýstar, að ómerktum landamærum. Reynsluheimur er landslag, atburðir eru landslagsarkitektar. Gakktu með minningar í vasanum, mættu kvíðanum, mættu hugsunum, þinn farveg.
–
Elín Edda (1995) útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands og ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur gefið út tvær ljóðabækur og fjórar myndasögur. Ein þeirra, Gombri, var gefin út á frönsku af Éditions Mécanique Générale í Kanada árið 2019. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín – meðal annars 3. verðlaun Ljóðstafs Jóns úr Vör og bók hennar Núningur var valin besta ljóðabók ársins 2022 af menningarritstjórn Morgunblaðsins.
Guðrún Brjánsdóttir (1995) er íslenskufræðingur og óperusöngkona. Nóvella hennar, Sjálfstýring (2020), sigraði samkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, og skáldsaga hennar, Óbragð (2023), var valin ein af fimm bestu bókum ársins 2023 af gagnrýnendum RÚV og hlaut Íslensku hljóðbókaverðlaunin 2024. Guðrún hefur einnig gefið út ljóðabækurnar Skollaeyru (2017) og Kartöflukenningin endurskoðuð (2022, ásamt fleiri skáldum) og þýtt færeyskar ljóðabækur á íslensku.
–
Hlökkum til að sjá ykkur!