Við fögnum útgáfu sjálfsævisögunnar Fjórar árstíðir eftir Reyni Finndal Grétarsson í Eymundsson Smáralind, fimmtudaginn 28. ágúst kl. 17. Verið öll hjartanlega velkomin að samfagna með okkur! Boðið verður upp á léttar veitingar og bókin fæst á sérstökum útgáfuhófs-kjörum.
Reynir ólst upp við að þurfa að standa sig. Sem stofnandi og stjórnandi Lánstrausts, síðar Creditinfo, byggði hann frá grunni upp öflugt alþjóðlegt fyrirtæki sem stóð af sér risavaxnar sviptingar. En eitthvað vantaði.
Í Fjórum árstíðum lítum við í baksýnisspegilinn með Reyni, sem segir sögu sína af fágætri einlægni. „Þetta er saga um venjulegan strák frá litlu þorpi á Norðurlandi, sem gerir kannski stundum óvenjulega hluti ... Viðskiptasaga, saga af andlegum áskorunum og ástarsaga.“ Fólkinu sem bregður fyrir er jafnan lýst af innsæi. Ekki síst Reyni sjálfum.
Gefur það starfsævinni meiri merkingu að gera sjálfan sig óþarfan? Er betra fyrir sálina að smíða hús á Blönduósi en að sitja að veisluborðum með milljarðamæringum og þjóðhöfðingjum? Er betra að græða sár en peninga? Er hægt að finna slóða þegar vegurinn virðist ekki ná lengra? Er skemmtilegra að safna landakortum en greiðslukortum? Er hægt að finna nýjan tilgang og gerast rithöfundur?
Fjórar árstíðir er þroskasaga um andríkan harðhaus sem lærði að sleppa tökunum.
Ummæli um bókina:
„Þegar fólk skrifar með svo gjöfulum hætti um líf sitt kveikir það ljós í huga lesandans. Mennskan í þessari bók gerir hana að algjörum síðufletti.“
GUÐRÚN EVA MÍNERVUDÓTTIR
„Gott kaffi hér á ferð. Alltaf kröftugur galdur þegar baráttan og mýktin mætast í íslenskum karlmanni eins og gerist í þessari vel skrifuðu bók.“
ÓLI STEF
„Leiðin til árangurs er mörkuð áföllum. Þetta er heiðarleg bók og kemur verulega á óvart.“
BUBBI MORTHENS