Stund í tali og tónum er samstarfsverkefni hjónanna Guðnýjar Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnars Kvaran sellóleikara.
Innihald textans eru hugleiðingar um andleg mál sem hafa verið Gunnari lengi hugleikin.
Textinn er brotinn upp með stuttum tónlistaratriðum, sem þau hjónin flytja, þannig að hið talaða orð og tónlistin myndi eina fallega heild.
Öll eru hjartanlega velkomin og aðgangur er ókeypis.
Dagsetningar og staðir:
Grindavíkurkirkja, laugardaginn 18. október kl. 16:00
Vídalínskirkja, laugardaginn 25. október kl. 16:00
Guðríðarkirkja, laugardaginn 15. nóvember kl. 16:00
Áætlaður heildartími hvers viðburðar er um klukkustund.
Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari var 1. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands í áratugi. Jafnframt því hefur hún starfað sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík, síðar Menntaskóli í Tónlist og við Listaháskóla Íslands þar sem hún var útnefnd heiðursprófessor árið 2018.
Á ferli sínum hefur Guðný komið fram sem einleikari víða um lönd og einnig verið gestakennari við virta háskóla erlendis.
Gunnar Kvaran sellóleikari var um árabil yfirmaður strengjadeildar Tónlistarskólans í Reykjavík og síðar prófessor í sellóleik og kammertónlist við Listaháskóla Íslands. Hann hefur leikið einleik í mörgum virtum sölum erlendis og má þar nefna Carnegie recital Hall í N.Y., Wigmore Hall í London og Beethoven House í Bonn.
Þau Guðný og Gunnar hafa komið fram sem dúó á fjölmörgum tónleikum bæði heima og erlendis auk þess að leika saman kammertónlist víða á tónlistarhátíðum.
Stór hópur fyrrverandi nemenda þeirra gegna lykilstöðum bæði heima og erlendis. Þau hafa hlotið ýmsar viðurkenningar og meðal þeirra Riddarakross hinnar Íslensku Fálkaorðu.