Fimmtudagskvöldið 27. nóvember kl. 20:00 verður haldin bókakynning og upplestur í Bókasafni Reykjanesbæjar Hjallavegi 2.
Fram koma rithöfundarnir: Kolbeinn Þorsteinsson, Marta Eiríksdóttir, Reynir Traustason og Una Margrét Jónsdóttir.
Kolbeinn Þorsteinsson segir frá bók sinni Mamma og ég – Myndir og minningar, þar sem hann fjallar um samband sitt við móður sína Ástu Sigurðardóttur sem var þjóðþekktur rithöfundur. Í bókinni lýsir hann þeim mikla sársauka sem fylgdi því að alast upp hjá móður sem glímdi við óreglu og fíkn.
Marta Eiríksdóttir les upp úr nýjustu bók sinni, Þjáningin er fæðingarhríð skilningsins sem fjallar um þjáninguna, sem er eins konar þroskasaga keflvískrar stúlku. Marta er íslenskukennari að mennt en starfar í dag sem jógakennari og bókaútgefandi eigin bóka. Hún hefur skrifað og gefið út sjö bækur frá árinu 2012.
Reynir Traustason, fyrrverandi blaðamaður og ritstjóri, mun lesa upp úr nýjustu bók sinni, Fólkið í vitanum – Gleði og sorgir í Hornbjargsvita. Bókin geymir harmþrungnar, glaðbeittar og ævintýralegar frásagnir af fólki sem bjó við Hornbjargsvita frá 1930 til 1995. Bókin byggir á fjölda viðtala, bréfaskriftum og rituðum útgefnum heimildum um líf og starf í vitanum og nágrenni hans.
Una Margrét Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1 og fræðimaður í leikhústónlist, les upp úr bók sinni, Silfuröld revíunnar sem er síðara bindi íslenskrar revíusögu. Í bókinni er fjallað um revíur frá 1957-2014 auk kabaretta og áramótaskaupa. Meðal annars mikið fjallað um revíur í Keflavík/ Reykjanesbæ, frá 1988-2015, eins og revíur eftir Ómar Jóhannsson, Huldu Ólafsdóttur og fleiri.
Hægt verður að kaupa áritaðar bækur beint af höfundum á viðburðinum.
Boðið verður upp á kaffi og konfekt.
Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin!
You may also like the following events from Bókasafn Reykjanesbæjar: